Para- og samskiptaþjálfun

Markþjálfunar sem og NBI-greiningar eru frábær verkfæri til þess að styðja við okkur í samböndum við okkar nánustu, sem og einfaldlega í öllum samskiptum. Ég nota þau verkfæri hér ásamt reynslunni af því að hafa verið nánast óslitið hamingjusamur í sambandi með eiginkonu minni frá því 2. september 1995.

Það hefur fjölmargt gengið á í sambandinu okkar á þeim tíma eðlilega, alls kyns verkefni sem að lífið hefur fært okkur sem og alls kyns áskoranir sem að við höfum sjálf skapað okkur með að virðist kjánalegri hegðun sem gjarnan er byggð á reynsluleysi og vanþekkingu. Við höfum lært að vera ekki meðvirk, að segja bara satt, að hafa hag beggja að leiðarljósi um leið og við fáum að njóta okkar líka sem einstaklingar. Ég gæti sagt svo margt hérna um sambandið okkar og hjónaband, en fyrir mér er besta lýsingin einfaldlega sú að við erum nánari, hamingjusamari og fullnægðari saman í dag en við höfum nokkru sinni verið áður. Og ég myndi segja að við þökkum það fyrst og fremst reynslunni okkar saman og fúsleikanum til þess að læra meira og takast á við þær áskoranir sem hafa ratað inn í sambandið okkar, með þeirri aðstoð sem best hefur virkað fyrir okkur hverju sinni. Það er nefnilega ekki sjálfsagt að vera að springa úr hamingju og fullnægju í sambandi – það er eilífðar verkefni að vinna að því.

Í Para- og samskiptaþjálfun langar mig að bjóða þér að brúa bilið – að hjálpa þér/ykkur að stytta þér/ykkur leiðina og reyna um leið að spara ykkur að þurfa mögulega að þurfa að ganga í gegnum alls kyns áskoranir sem þú/þið mynduð annars ganga í gegnum eða ert/eruð þegar að takast á við.