Undirbúningur fyrir Markþjálfa samtal

Í upphafi skyldi endinn skoða

Hver væri allra besta niðurstaðan af samtalinu okkar?

Ef þú hugsaðir eftir tímann:

„Þetta var frábært samtal vegna þess að núna…“

Hvernig viltu getað klárað þessa setningu? Veltu þessari spurningu fyrir þér.

Samtalið á að vera í þínum höndum, þú átt að ákveða umræðuefnið! Þegar þú kemur í markþjálfasamtal er mikilvægt að hafa það í huga að samtalið kemur til með að snúast um þig og það sem þú vilt að verði að þínum veruleika. Ég mun halda þér við efnið eftir bestu getu og hjálpa þér að skoða möguleikana og hvernig þú getur yfirstigið þær hindranir sem kunna að vera á veginum. Ég hjálpa þér að greina og vinna með þá styrkleika sem þú hefur, sem eru oftast mun fleiri en þú gerir þér grein fyrir í fyrstu. Sömuleiðis hjálpa ég þér að vinna með mögulegar hugskekkjur, þegar raunveruleiki þinn er mögulega annar en sá sem þú hefur talið þér trú um.

Í markþjálfasamtali er mikilvægt að báðir aðilar taki hlutverki sínu alvarlega. Þar er stiginn dans í takti trúnaðar þar sem þér – markþeganum – gefst rými til að leggja spilin á borðið og spá í framtíðina og hvernig þú getur spilað best úr því sem þú hefur.

Þetta trúnaðarsamband er lykilforsenda fyrir því að árangur náist.

Bæði þú og ég sammælumst um að virða í hvívetna eftirfarandi leikreglur:

Sem markþjálfi heiti ég því:

·  að virða það traust og þann trúnað sem mér er sýndur

·  að hafa hagsmuni markþegans ávalt að leiðarljósi

·  að taka virkan þátt í markþjálfunarsamtalinu

·  að halda markþeganum við efnið

·  að mæta á réttum tíma og vera vel undirbúinn

·  að fylgja markþeganum eftir í þeim markmiðum sem hann setur sér

·  að endurgjöf mín sé heiðarleg og beinskeitt

·  að standa við það sem ég segi

Sem markþegi ætlar þú:

·  að virða það traust og þann trúnað sem þér er sýndur

·  að vera opinská/r/tt og heiðarleg/ur/t um þau mál sem tekin eru fyrir

·  að taka virkan þátt í markþjálfunarsamtalinu

·  að halda þér við efnið

·  að standa við það sem þú segir

·  að mæta á réttum tíma og vera vel undirbúinn

·  að fylgja eftir þeim markmiðum sem þú setur þér

·  að taka endurgjöf með opnum huga í þeim tilgangi að læra

Siðareglur markþjálfa Profectus sem að ég starfa eftir:

– Sem markþjálfi mun ég:

·  Ekki staðhæfa neitt sem er ósatt eða villandi um það sem ég hef að bjóða sem markþjálfi, né heldur viðhafa rangar fullyrðingar í rituðum gögnum sem tengjast markþjálfun, mínum eigin viðurkenndu réttindum til starfans eða um ICF.

·  Gera nákvæma grein fyrir starfshæfni minni, sérfræðikunnáttu og reynslu sem markþjálfi, sem og viðurkenndum réttindum mínum og vottunum.

·  Ætíð halda í heiðri siðareglur ICF er ég gegni hlutverki markþjálfa, leiðbeinanda eða handleiðara í markþjálfun.

·  Viðhalda og varðveita gögn er varða starf mitt sem markþjálfi, og farga þeim, þannig að fyllsta trúnaðar og öryggis sé gætt og viðeigandi lögum og samþykktum sé fylgt.

·  Leitast við að forðast raunverulega eða mögulega hagsmunaárekstra og upplýsa um þá, séu þeir til staðar.

·  Bjóðast til að draga mig í hlé komi til hagsmunaárekstra.

·  Greina viðskiptavini mínum og kostunaraðila viðkomandi frá hvers kyns þóknun frá þriðja aðila sem ég kann að hljóta eða greiða fyrir vegna tilvísunar til þriðja aðila.

·  Því aðeins semja um þjónustu/vöruskipti eða önnur hlunnindi að það spilli ekki markþjálfunarsambandinu.

·  Ekki vísvitandi ætla mér nokkurn persónulegan, faglegan eða fjárhagslegan hagnað af markþjálfunarsambandinu, nema þá þóknun sem kveðið er á um í samkomulagi eða samningi um markþjálfunina.

·  Ekki gefa viljandi villandi eða röng fyrirheit um hvaða gagn viðskiptavinurinn eða kostunaraðilinn muni hafa af markþjálfun eða af mér sem markþjálfa.

·  Ekki veita verðandi viðskiptavinum eða kostunaraðilum upplýsingar eða ráð sem ég veit eða held að séu villandi eða röng. 

·  Gera skýrt samkomulag eða samning við viðskiptavina mína og kostunaraðila. Ég mun virða allt sem um er samið í tengslum við faglegt markþjálfunarsamband.

·  Tryggja, ýmist fyrir eða á fyrsta fundi, að viðskiptavinur minn og kostunaraðili/aðilar skilji eðli markþjálfunar, eðli og mörk trúnaðar, fjárhagslegar ráðstafanir og aðra skilmála markþjálfunarsamningsins.

·  Virða rétt viðskiptavinarins til að rjúfa markþjálfunarferlið hvenær sem er, í samræmi við samningsákvæði. Ég skal vera vakandi fyrir merkjum um að viðskiptavinurinn kunni ekki lengur að hafa hag af markþjálfunarsambandinu.

·  Hvetja viðskiptavin eða kostunaraðila til breytinga ef ég tel að annar markþjálfi eða aðili gæti betur þjónað þörfum hans.

·  Leggja til að viðskiptavinur minn leiti þjónustu annarra fagaðila telji ég það viðeigandi eða nauðsynlegt.

·  Halda í hvívetna trúnað um upplýsingar frá viðskiptavinum og kostunaraðilum, nema þeir, með formlegu samþykki, heimili annað eða lög krefjist þess. Trúnaðarskylda helst þótt samningi sé lokið.

·  Gera skýrt samkomulag um hvernig upplýsingum er markþjálfunina varða, er miðlað milli markþjálfa, viðskiptavinar og kostunaraðila. 

·  Skýra viðteknar reglur um trúnað er ég starfa við þjálfun nýliða í markþjálfun.

·  Heita því að halda í heiðri siðareglur ICF í starfi mínu sem markþjálfi.